Skuldir heimilanna munu eyðileggja framtíð þjóðar ef ekki verður gripið til almennra aðgerða

Samstarfsaðilar hafa ítrekað "ákall til stjórnvalda" - - frá 11. febrúar sl. - - með auknum þunga.

Ákallinu má gjarna fylgja eftir með áréttingu og rökstuðningi:

Greinargerð og nánari rökstuðningur vegna ákalls  10. september 2009. 11 mánuðum eftir bankahrun eru eftirfarandi staðreyndir að verða æ betur ljósar:

Almenningur í landinu stendur frammi fyrir mjög alvarlegum og útbreiddum vanda vegna ófyrirséðra hækkana á öllum verðtryggðum lánum, samfara lækkandi verði íbúðarhúsnæðis.    Greiðslubyrði skuldsettra fjölskyldna hefur þyngst úr hófi fram svo ekki sér fyrir endann á.  

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að nærri 30 þúsund fjölskyldur sjái fram á neikvæða eignastöðu í  eigin húsnæði og að teknu tilliti til allra annarra lána (námslána, yfirdráttar- og bílalána) má álykta að sá hópur sem telst eignalaus muni fljótt nálgast 50 þúsund fjölskyldur  - eða nærri helming allra fjölskyldna í landinu.  Á sama tíma hafa þúsundir manna misst vel launuð störf og nærri 15 þúsund eru á atvinnuleyssiskrá.     Tugþúsundir Íslendinga hafa því verulega minna til ráðstöfunar um leið og allt verðlag á vöru og þjónustu hefur rokið upp.

Allt frá hruninu hafa stjórnvöld freistað þess að vernda sparnað almennings í bönkum með því að tryggja allar almennar innistæður og jafnframt var amk. 200 milljörðum beint inn í peningamarkaðsreikninga föllnu bankanna.  

Alger forsendubrestur hefur orðið varðandi verðtryggingu lánaskuldbindinga þar sem verðtrygging mv. vísitölu neysluverðs var aldrei hönnuð til að takast á við afleiðingar efnahagshruns og  verulegur vafi leikur á um lögmæti gengisviðmiðunar  í lánaviðskiptum.   

Þúsundir fjölskyldna eru komnar í greiðsluvanda eða sjá fram á greiðsluþrot verði ekkert að gert af hálfu stjórnvalda.   Greiðsluvilji margra þeirra sem enn geta staðið í skilum virðist á þrotum.     Hætta er á að þeir sem svo er komið fyrir muni þannig verða þvingaðir til að hverfa frá virkri þáttöku í efnahagslífinu, mögulega flytja úr landi eða etv.  freista þess að komast af í hagkerfi neðanjarðar.   Slíkar afleiðingar eru bæði efnahagslega og félagslega stórháskalegar og mikilvægt að stjórnvöld viðurkenni nauðsyn þess að grípa til almennra aðgerða meðan enn er ráðrúm til þess.

Hefðbundið sparnaðarform íslenskra fjölskyldna hefur oftast legið í eigin húsnæði.   Með misgengi gengistryggðra og verðtryggðra lána og verðþróunar fasteigna er vegið harkalega að hagsmunum íbúðareigenda, húsnæðisamvinnufélaga og sjálfseignarfélaga.   

Hamfaratjón

Íslendingar hafa reynslu af því að takast sameiginlega á við hamfarir og staðbundin áföll og gera það af ábyrgð.  Nægir að vísa til þess hvernig þjóðin öll sameinaðist um að bæta eignatjón Vestmannaeyinga eftir gosið í Heimaey 1973 og einnig hvernig tekist var á við eignatjón af snjóflóðum í Neskaupstað, Súðavík og Flateyri.   Nýlega voru stjórnvöld að gera grein fyrir bótum vegna jarðaskjálfta á Suðurlandi.     „Viðlagasjóður/Viðlagatryggingar“ hafa verið fjármagnaðar sérstaklega í slíkum tilvikum og gert er upp við tjónþolana óháð öðrum efnahag þeirra.   Ekkert ætti endilega að vera því til fyrirstöðu að glíma við afleiðingar efnahagshrunsins og tjón skuldsettra fjölskyldna eftir sambærlegum leiðum.

Aðilar telja að stjórnvöld hafi tafarlausa skyldu til að endurreisa jafnræði á  milli íbúðareigenda og annarra fjármagnseigenda og lántakenda – um leið og réttarstaða neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum verður tekin til algerrar endurskoðunar.

VERÐTRYGGING húsnæðislána, almennra neytendalána og námslána er sér-íslenskt fyrirbæri.   Þá liggur einnig fyrir að verulegur vafi leikur á um lögmæti þess að lána út íslenskar krónur með gengistrygginu miðað við erlenda gjaldmiðla.  Hvort sem um er að ræða viðmiðun af vísitölu neysluverðs eða gengi erlendra gjaldmiðla voru heimildir til verðtryggingar innleiddar og rökstuddar til að takast á við stöðuga verðbólgu og þenslu, en á engu stigi hafa verið tilgreindir sérstakir fyrirvarar um gildi eða viðmið í gegn um allsherjar efnahagshrun og gjaldeyriskreppu. 

 

Rétt er að halda því til haga að það er  sérstaklega nefnt í greinargerð með ógildingarheimild 36. gr. samningalaga, að eitt af því sem getur orðið forsenda þess að samningi sé vikið til hliðar í heild eða að hluta, séu verulegar breytingar á gengi gjaldmiðils.

 

Það kunna að hafa verið afdrifarík mistök ríkisstjórnar og Alþingis að frysta ekki allar vísitölur og gengisviðmið fjárskuldbindinga – við ákveðin gildi – samfara setningu neyðarlaga í október 2008.   Lögvarðar heimildir til verðtryggingar hafa flutt hundruði milljarða milli aðila – sem afleiðing hrunsins, – óháð öðrum verðmætabreytingum.

 

Í öllum nágrannalöndum þar sem efnahagskreppan sækir að hafa stjórnvöld og yfirvöld peningamála – kappkostað að lækka vexti og endurfjármagna lán almennings – færa niður nafnverð lána á yfirveðsettum eignum og sveigja lánaskilmála.    Staðbundin verðbólga léttir þannig einnig undir með lántakendum – í stað þess að refsa þeim sérstaklega. 

 

Í öllum nágrannalöndum hafa lánskjör verið aðlöguð þessum veruleika kreppunnar og með því tekið þátt í „kreppuleiðréttingu“ fjármunalegra verðmæta.   Á Íslandi sæta lántakendur því hins vegar að verðtrygging  leggur á þá sérstakt „refsigjald“ vegna hrunsins og gengisfellinga og verðbólgu eins og vísitala neysluverðs mælir.   Afleiðingar verðtryggingar í gegn um bankahrun og gjaldeyriskreppu eru þannig fordæmalausar og engin leið að sækja fyrirmyndir um viðbrögð í reynslu nágrannaþjóða – né heldur að hefðbundnar hagfræðikenningar veiti þar neina auðsæja leiðbeiningu.

 

Samanburður og lærdómar frá öðrum vestrænum löndum verður því að taka mið af þessum ólíku aðstæðum.  

 

Rétt er að benda á að fram til þessa hefur enginn ábyrgur aðili gert kröfur um að niðurfærsla verðtryggðra lána gengi lengra en til leiðréttingar á vísitöluálagi lána eða á gengistapi gjaldeyristengdra lánasamninga.   

 -------
Aðilar hafa óskað eftir fundum með þingflokkum á Alþingi til að fylgja eftir kröfum sínum um almennar aðgerðir í lánamálum heimilanna.Jafnframt hafa aðilar óskað eftir liðsinni ASÍ, BSRB og Neytendasamtaka í baráttu fyrir endurnýjuðu  jafnræði til handa  skuldsettum fjölskyldum í landinu.

 


mbl.is Ítreka kröfur um aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Kveðjur úr höfuðborginni

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.9.2009 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband